F-listi: Frjálslyndi flokkurinn
9.5.2003 kl. 18:40
Í daga hafa birst fimm fylgiskannanir. Könnun Fréttablaðsins gefur til kynna jafnræði með listunum en kannanir Félagsvísindastofnunar, DV, IBM ráðgjafar og síðasta raðkönnun Gallups sýna 4–8 prósentustiga mun D-lista í hag.
Miklu skiptir að staðsetja kannanirnar rétt í tíma. Þótt þær birtist allar sama daginn eru þær að lýsa fylginu á ólíkum tímabilum. Þær virðast sýna fylgisaukningu hjá Samfylkingu og fylgisminnkun hjá Sjálfstæðisflokki. Ef kannanirnar er staðsettar rangt, tapast augljóslega þær upplýsingar. Vert er að geta þess að ég hef ekki fengið neina staðfestingu á könnunartímabili könnunar IBM ráðgjafar. Auk þess hef ég áætlað svarhlutfallið fyrir IBM ráðgjöf. Það síðarnefnda ætti þó engin áhrif að hafa á niðurstöðuna en staðsetning könnunar er lykilatriði.
Nú birtist sú mynd af fylgisþróuninni að Samfylking sæki í sig veðrið en Sjálfstæðisflokkur dali lítillega. Fylgi Sjálfstæðisflokks er metið sem 35,3% í gær 8. maí síðastliðinn og virðist sem fylgið minnki um 0,1 prósentustig á dag. Það mætti því gera ráð fyrir að fylgi flokksins verði um 35,1% á kjördag. Fylgi Samfylkingar hefur aukist og er metið 31,1 prósentustig þann 8. maí sl. Hitt er þó enn markverðara að fylgið virðist aukast um 0,4 prósentustig á dag. Þetta er ótrúlegur vöxtur í fylgi. Ef það gengur eftir má búast við að fylgi Samfylkingar verði orðið 31,9% á kjördag. Þessi mikla fylgisaukning er á mörkum þess að vera trúverðug, en væntanlega munu niðurstöður kosninga varpa ljósi á það. Sem fyrr er mat á fylgisþróun er þó óvisst og háð niðurstöðum síðustu kannnana.
Nú virðist sem fylgismunur D- og S-lista sé aðeins um fjögur prósentustig, fari minnkandi og gæti hafa minnkað niður í rétt rúm þrjú prósentustig á kjördag. Hvað gerist í kjörklefanum vitum við ekki. Það er altalað að D-listi mælist of hátt í skoðanakönnunum; ef það gengur eftir, gæti allt gerst á kjördag. Það má því við mikilli spennu meðan beðið er kosningaúrslita og hugsanlega er spennandi kosninganótt framundan.
Þótt verulegur breytileiki hafi verið í niðurstöðum fylgiskannana undanfarna daga, má skýra hann að mestu leyti sem úrtaksóvissu. Það er því alls ekki það ósamræmi í niðurstöðum kannana eins og ætla mætti ef hlustað væri á umfjöllun í fjölmiðlum og spjallþáttum.
Nýlegar fylgiskannanir leiða til þess að fylgi Framsóknarflokks er metið hærra en áður eða 16,6% þann 8. maí síðastliðinn. Það hefur hægt á fylgisaukningunni en hún er þó enn metin sem rúmlega 0,1 prósentustig á dag en þó minni síðustu 2–3 daganna eða svo. Það má því gera ráð fyrir að fylgið geti verið orðið 16,8% á kjördag.
Fylgi frjálslyndra heldur áfram að dala og jafnvel hraðar en áður. Fylgi þeirra gæti hafa verið 8,1% þann 8. maí síðastliðinn. Nú virðist fylgið minnka mjög hratt eða um 0,3 prósentustig á dag. Fylgi F-lista gæti því verið orðið 7,5% á kjördag.
Fylgi Vinstri grænna virðist virðist einnig dala. Það gæti hafa verið 8,0% þann 8. maí síðastliðinn og dalað um rúmlega 0,1 prósentustig á dag. Fylgi vinstri grænna gæti því verið komið niður í 7,8% á kjördag.
Ofangreint mat á fylgisþróun þarf auðvitað að taka með miklum fyrirvara. Það er erfitt að meta fylgisþróun nákvæmlega og því er öruggast að bíða kosningaúrslita áður en mikið er fullyrt um kjörfylgi ólíkra fylkinga.
© 2003 Guðmundur B. Arnkelsson