Una B. Bjarnadóttir
Aðstoðarkerfi fatlaðra í Menntaskólanum við Hamrahlíð


Lög um framhaldsskóla

Lög um framhaldsskóla eru 48 greinar og skiptast í 15 kafla. Í lögunum og reglugerð þeim tengdum er m.a. fjallað um hlutverk framhaldsskóla, stjórnun, innri skipan, inntökuskilyrði, og rekstur. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérstaka fjárveitingu á fjárlögum. Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingu á fjárlögum til hvers skóla og annast fjárhagslegt eftirlit, svo og eftirlit með því að framhaldsskólar hafi fullnægjandi aðstöðu. Ríkissjóður greiðir allan launakostnað vegna kennslu, stjórnunar og annarra starfa. í 19. grein laganna segir:

Á framhaldsskólastigi skal veita fötluðum nemendum samkvæmt skilgreiningunni á hugtakinu fatlaður í 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntamálaráðuneytisins. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er. Menntamálaráðherra getur heimilað stofnun sérstakra deilda við framhaldsskóla fyrir fatlaða nemendur. Menntamálaráðherra setur reglugerð með nánari ákvæðum um kennslu og nám fatlaðra nemenda í framhaldsskólunum.

Í 2. grein laga nr. 59/1992 segir um málefni fatlaðra:

Sá á rétt á þjónustu samkvæmt lögum þessum sem er andlega eða líkamlega fatlaður og þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón og heyrnarskerðingu. Ennfremur getur fötlun verið afleiðing af langvarandi veikindum svo og slysum.

Nánari upplýsingar um lög um framhaldsskóla og reglugerðir má fá í menntamálaráðuneytinu.

©1996