Alma Oddgeirsdóttir
Flogaveiki


Helstu tegundir floga

Flogaveiki nær yfir meira en 20 tegundir floga sem verða vegna skammvinnra breytinga á eðlilegri rafvirkni heilans.

Algengust floga eru krampaflog þar sem rafboð í öllum heilanum raskast. Við krampaflog verður viðkomandi skyndilega stífur, missir meðvitund, fellur til jarðar, blánar og taktfastir kippir eða krampar fara um líkamann. Oft sést froða í munnvikum sem stundum er blóðlituð ef tunga eða gómur særist. Í byrjun krampans getur heyrst hávært óp sem stafar af því að kröftugur vöðvasamdráttur þrýstir lofti úr lungum. Af sömu ástæðu geta þvagblaðra og ristill tæmst.

Krampaflog stendur sjaldan lengur en 4-5 mínútur en flestir sofna í um 1/2 klukkustund á eftir og geta verið syfjaðir og ruglaðir er þeir vakna.

Aðrar algengar tegundir floga eru ráðvilluflog og störuflog.

Ráðvilluflog orsakast að óeðlilegum rafbylgjum í, eða í tengslum við gagnaugalappa heilans. Flogið hefst á "fyrirboða" sem viðkomandi skynjar áður en meðvitund hans raskast. Viðkomandi verður ekki var við umhverfi sitt eða skynjar það á draumkenndan, óraunverulegan hátt. Einkennilegt ósjálfrátt atferli einkennir þessa gerð floga, s.s. að smjatta, eigra um, fitla við föt sín, umla og tala samhengislaust. Oft fylgir tómlegt starandi augnaráð og sambandsleysi við umhverfið. Fólk í ráðvilluflogi getur virst drukkið eða undir áhrifum lyfja.

Störuflog eru algengust hjá börnum á skólaaldri og standa þau yfirleitt mjög stutt (algengast 5-30 sek). Barnið verður skyndilega fjarrænt og starir fram fyrir sig án þess að falla til jarðar. Stundum deplar barnið augunum ótt og títt eða kippir sjást í andliti eða útlimum. Barnið veit ekki hvað er að gerast umhverfis það meðan flogið stendur yfir en kemst fljótlega til fullrar meðvitundar þegar það er gengið yfir. Köstin geta komið mörgum sinnum á dag og trufla þá barnið í leik eða námi. Köstin geta farið fram hjá aðstandendum og kennurum og stundum er haldið að um dagdrauma eða vísvitandi einbeitingarleysi sé að ræða.

Oftast eldast störuflog af börnum. Meðferð er mikilvæg til að hafa hemil á flogunum og hindra aðrar gerðir floga.

© 1997