Skólaganga flogaveikra barna
Niðurstöður rannsókna benda til þess að mörg börn með flogaveiki standi sig ver í námi en hæfileikar þeirra benda til. Talið er að eftirfarandi þættir hafi áhrif á þessa staðreynd:
- Endurtekin flog geta leitt til þess að mætingar í skóla verða lélegar, sérstaklega ef barnið er tekið úr skóla í hvert sinn sem það fær flog.
- Tíð köst sem erfitt er að hafa stjórn á geta haft neikvæð áhrif á nám.
- Börn með flogaveiki geta haft tilhneigingu til truflaðrar heilastarfsemi, ekki svo mikla að hún valdi stórum köstum en næga til að valda erfiðleikum í námi.
- Þrátt fyrir að meirihluti barna með flogaveiki hafi greind í meðallagi, er það samt sem áður staðreynd að að börn með námsörðugleika hafa háa tíðni flogaveiki.
- Ef orsakir flogaveikinnar má rekja til staðbundinna skemmda í heila getur það einnig haft áhrif á aðra námsörðugleika.
- Röng eða mikil lyfjagjöf getur haft neikvæð áhrif á námsárangur, sérstaklega ef barnið verður syfjað og sljótt af lyfjameðferðinni.
- Barnið kann að hafa lélega sjálfsmynd og ósjálfrátt samsamað sig litlum væntingum kennara og foreldra. Hegðunarvandamál flogaveikra barna er stundum hægt að rekja beint til flogaveikinnar sjálfrar en einnig er algengt að rekja megi hegðunarvandamálin til erfiðleika í samskiptum barnsins við fjölskyldu sína og félaga.
© 1997