Landssamtök áhugamanna um flogaveiki, LAUF, voru stofnuð árið 1985 í þeim tilgangi að standa vörð um hagsmuni flogaveikra, bæta félagslega aðstöðu þeirra, stuðla að rannsóknum, auka fræðslu um sjúkdóminn og eyða fordómum. Allir þeir sem vilja styðja tilgang samtakanna geta orðið félagar í þeim.
Félagið stendur fyrir margvíslegri starfsemi. Það rekur skrifstofu að Laugavegi 26 og þar starfa 2 starfsmenn í fullu starfi. Skrifstofa er opin alla virka daga frá kl. 9:00–15:00. Á skrifstofunni geta flogaveikir og aðstandendur þeirra leitað til ýmiss konar sérfræðinga s.s. félagsráðgjafa, sálfræðings og fjölskylduráðgjafa. Einnig er hægt að koma með fyrirspurnir til lækna og annarra varðandi ýmis mál er tengjast flogaveikinni. Á skrifstofunni er einnig hægt að fá lánað fræðsluefni um flogaveiki s.s. bækur og myndbönd. Síðast en ekki síst má líta á skrifstofuna sem nokkurs konar "félagsmiðstöð" áhugamanna um flogaveiki. Þar er alltaf hægt að líta inn, ræða málin og fá sér kaffi.
LAUF stendur fyrir margvíslegum fræðslufundum, bæði fyrir félagsmenn og aðra. Starfsfólk samtakanna hefur m.a. haldið fræðslufundi í leikskólum og grunnskólum, á vinnustöðum, staðið fyrir fundum og ráðstefnum í samvinnu við norræna aðila.
Samtökin gefa út blað, Laufblaðið, og er þar að finna fjölbreyttar upplýsingar um flogaveiki og ýmis málefni er snerta flogaveika.
Í samtali við félagsráðgjafa samtakanna, Jónínu Björgu Guðmundsdóttur, kom fram að þau félagslegu atriði sem mest brenna á félagsmönnum tengjast húsnæðismálum, uppsögnum á vinnustað, atvinnuleysi, þörf fyrir stuðning, ráðgjöf og upplýsingar um félagsleg réttindi.
© 1997