Alma Oddgeirsdóttir
Flogaveiki


Batahorfur flogaveikra

Áður fyrr var litið svo á að flogaveiki væri ævilangur sjúkdómur. Á öldum áður var flogaveiki talin heilagur sjúkdómur og flogaveikt fólk ýmist talið heilagt eða haldið illum öndum. Á tímum upplýsingar og fræðslu hefur þetta viðhorf sem betur fer breyst.

Lyf við flogaveiki verða sífellt betri og ekki er óvanalegt að í dag sé hætt við lyfjagjöf eftir tveggja ára meðferð ef batahorfur eru góðar. Áður fyrr tók fólk lyf árum og áratugum saman en nú er reynt að taka þá sjúklinga af lyfjum sem geta komist af án þeirra. Mjög margir geta komist af án lyfjanna, allt að 80% barna sem þarfnast meðferðar geta hætt lyfjatöku eftir tvö ár, ef vel gengur.

Í raun er e.t.v. ekki hægt að tala um lækningu heldur er frekar verið að tala um minnkandi líkur á flogakasti. Líkur barns, sem búið er að fá tvö flogaköst af einhverri ákveðinni tegund, á því að fá þriðja kastið eru 70–80% ef það fær ekki lyfjameðferð. Ef barnið hefur verið krampalaust í tvö ár á lyfjunum geta líkurnar hafa snúist við. Þá eru líkurnar e.t.v. 80% á því að kramparnir komi aldrei framar. Deilt er um hvað veldur þessu, hvort það eru lyfin sem sem hafi læknað barnið, eða hvort eitthvað annað hefur gerst.

Auknar rannsóknir á heilanum og heilavandamálum hafa m.a. leitt til aukinnar þekkingar á eðli floga og flogaveiki. Undanfarin ár hafa fimm ný lyf verið skráð við flogaveiki en ekkert hafði gerst á því sviði frá því fyrir 1980. Lyfin verða sífellt sérhæfðari og þarf því að velja þau nákvæmar en gömlu lyfin sem voru breiðvirkari. Nýju lyfin hafa minni slævingu í för með sér en þau gömlu og verkunin er sérhæfðari. Reynslan verður þó að sýna hvort þessi nýju lyf taka hinum fram hvað árangur meðferðar snertir.

© 1997