Sigríður Teitsdóttir
Asperger


Lög og reglugerðir

Í sambandi við lög og reglugerðir er bent sérstaklega á, að Lög um leikskóla nr. 78/1994 (II. kafli) segja að meðal meginmarkmiða með uppeldi í leikskóla sé að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo að þau fái notið bernsku sinnar. Í VI. kafla 15. gr. sömu laga kemur fram að börn á leikskólaaldri, sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, eigi rétt á henni innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga. Í 16. gr. sömu laga segir að ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla skuli veita foreldrum barna og starfsfólki leikskóla nauðsynlega ráðgjöf og þjónustu sem nánar verður kveðið á um í reglugerð um starfssvið þjónustunnar.

Engar reglugerðir eru til um sérkennslu leikskólabarna en í Reglugerð um sérkennslu nr. 389/1996 I. kafla 2. gr. segir:

Grunnskólinn skal laga starf sitt að þroska og getu allra nemenda sinna, þannig að hver nemandi fái kennslu við hæfi. Því ber að skipuleggja skólastarfið í heild út frá þörfum allra nemenda og skapa námsumhverfi sem hæfir hverjum og einum.

Lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992 taka skýrt fram í I. kafla 1. gr. að markmið þeirra laga er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Í 2. gr. sama kafla segir að sá eigi rétt á þjónustu samkvæmt lögum þessum sem sé andlega eða líkamlega fatlaður og þarfnist sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðingu. Í III. kafla um almenna þjónustu segir í 7. gr. að fatlaðir skuli eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf hins fatlaða meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hinn fatlaði fá þjónustu samkvæmt lögum þessum. VIII. kafli fjallar um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, en hlutverk hennar er m.a: athugun, rannsókn og greining á fötluðum sem vísað er þangað eða leita þangað af eigin frumkvæði. Gerð, prófun og mat viðeigandi meðferðar- og þjálfunaráætlana. Ráðgjöf og leiðbeiningar fyrir foreldra/forráðamenn eða aðra meðferðaraðila.

Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996, VII. kafli 19. gr. greina frá því að fötluðum nemendum, samkvæmt nánari skilgreiningu, skuli veita kennslu og sérstakan stuðning í námi á framhaldsskólastigi eftir því sem þörf krefur. Og þeir skuli stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.

©1997