Markmið með lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992, sbr. 1. grein, er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra í þjóðfélaginu og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 2. grein þessara laga á sá rétt á þjónustu sem er andlega eða líkamlega fatlaður og þar með blindir og sjónskertir. Blindir og sjónskertir eiga samkvæmt 7. grein rétt á almennri þjónustu t.d. á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Í lögum um grunnskóla nr. 66/1995 segir m.a. í 2. grein að grunnskólinn skuli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Nánar er kveðið á um þetta í reglugerð nr. 389/1996 um sérkennslu og segir þar í 2. grein að grunnskólinn skuli laga starf sitt að þroska og getu allra nemenda sinna, þannig að hver og einn fái kennslu við hæfi.
Í lögum um framhaldsskóla nr. 80/1996 kemur fram að á framhaldsskólastiginu skuli veita fötluðum nemendum samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu fatlaður í 2. grein laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, kennslu og sérstakan stuðning í námi. Ef þörf krefur, að mati menntamálaráðuneytisins, skal einnig látin í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður.
©1996