Margskonar ranghugmyndir eru uppi um hvernig það sé að vera blindur. Margir telja að allir þeir sem eru blindir sjái alls ekki neitt og lifi í heimi myrkurs. Hins vegar er sannleikurinn sá að einungis um 10% þeirra sem skilgreindir eru lögblindir eru alblindir. Flestir þeirra hafa einhverja sjón; greina í það minnsta milli birtu og myrkurs. Önnur ranghugmynd er sú að hægt sé að flokka blinda niður í ákveðna hegðunar- eða persónueinkennaflokka, t.d. að segja að allir blindir séu ósjálfbjarga eða haldnir minnimáttarkennd. En slíkar tilraunir hafa engan árangur borið fremur en þegar aðrir fatlaðir eiga í hlut. Meðal þeirra má finna jafnfjölbreytta fánu einstaklinga eins og hjá öllum öðrum hópum samfélagsins. Munur á einstaklingum, eins og meðal ófatlaðra, er það sem einkennir hópinn.
Blinda hefur óhjákvæmilega í för með sér mikla einangrun þess sem í hlut á frá hinum sjáandi meirihluta. Þetta stafar m.a. af því að mikilvægar upplýsinga- og tjáskiptaleiðir eru lokaðar eða heftar. Sem dæmi um þetta má nefna hvers kyns svipbrigði og svo er hlutverk myndmáls við upplýsingaöflun af ýmsu tagi stöðugt mikilvægara. Hitt er ekki síður mikilvægt að fötlun á borð við blindu kallar á ákveðin viðbrögð frá umhverfinu. Þeir sem ófatlaðir eru horfa gjarnan á fatlaða úr vissri fjarlægð og eru oft fremur áhorfendur en þátttakendur í lífi þeirra. Þannig myndast oft gjá sem einangrar hinn blinda frá þeim sem sjáandi eru.
Orsakir blindu og sjónskerðingar meðal barna og unglinga má rekja til arfgengra sjúkdóma og/eða þróunargalla. Algengasta sjúkdómsbreytingin í augum er rýrnun á sjóntaug, meðfætt drer og meðfæddur vanskapnaður á augum.
©1996