Tölfræði IIISkilaverkefni 1: Einhliða dreifigreining

Verkefnið byggir lauslega á rannsókninni „A comparison of cognitive therapy, applied relaxation and imipramine in the treatment of panic disorder“ (Clark, Salkovskis, Hackmann, Middleton, Anastasiades og Gelder, 1994); aðgangur fæst með því að setja titil greinarinnar inn í vefleit á Google Scholar. Verkefnið er þó í veigamiklum atriðum breytt frá upprunalegu rannsókninni auk þess sem gögn og niðurstöður eru aðrar.

Felmturskast er þegar aðili skyndilega upplifir mikinn kvíða og hræðslutilfinningu ásamt örum hjartslætti, andnauð eða öðrum samsvarandi einkennum (Jakob Smári, 2000). Þeir sem reglubundið fá felmtursköst eru sagðir vera með felmtursröskun (panic disorder) og ýmis meðferðarúrræði eru til staðar.

Í fyrrgreindri rannsókn voru batahorfur þriggja meðferða bornar saman. Frumbreytan tekur því þrjú gildi: Hugræn meðferð (cognitive therapy), slökun (applied relaxation) og lyfjameðferð (Imipramine). Fylgibreytan er samsett úr niðurstöðum 17 kvarða sem mæla m.a. kvíða og tíðni ofsakvíða (felmturskasta; panic). Hverjum og einum þessara kvarða var breytt í z-tölu (meðaltal núll og staðalfrávik 1) og meðaltal reiknað yfir alla 17 kvarðanna.

Meðferðarúrræðin þrjú eru ólík í verklegri útfærslu, t.d. lyfjagjöf samanborið við sálfræðimeðferð, en byggja auk þess á ólíkum kenningum varðandi orsakir og tilkomu ofsakvíða (felmturskasta).

Aðili með felmtursröskun er gjarn á að túlka öran hjartslátt sem óeðlilegan og hættulegan, t.d. sem vísbendingu um hjartaáfall, fremur en sem eðlilegt viðbragð líkamans við aðstæðum. Í hugrænni meðferð er verið að takast á við rangtúlkanir á aðstæðum og líkamsskynjun. Þessar rangtúlkanir eru taldar vera tilurð felmturskasta.

Þegar aðili byrjar að finna fyrir hræðslu og kvíða er mikilvægt fyrir viðkomandi að slaka á og endurmeta aðstæður. Í slökunarmeðferð er skjólstæðingnum kennt að slaka á í stað þess að fyllast ótta.

Lyfjameðferð hefur það markmið að koma jafnvægi á taugaboðefni sem stjórna líkamlegum viðbrögðum við hræðslu, yfirleitt með beitingu geðvirkra (psychoactive) lyfja.

Þátttakendur í rannsókninni voru samtals 60, allir greindir með felmtursröskun samkvæmt viðmiðum DSM-III-R. Þeim var skipt með tilviljunaraðferð í þrjá jafnstóra meðferðarhópa sem hver byggðist á sínu meðferðarúrræði. Hóparnir þrír voru með sambærileg meðaltöl á samsettu fylgibreytunni við upphaf meðferðar; sjá nánar efstu línu í töflu 2 á bls. 764 í greininni. Meðferð var með fullum þunga fyrstu þrjá mánuðina, síðan með minni ákefð næstu þrjá mánuði og að lokum var kvíðinn metinn 15 mánuðum eftir að meðferð hófst. Verkefnið byggist á niðurstöðum eftir fyrstu þrjá mánuðina í meðferð.

Rannsóknarspurningin er hvort að munur sé á árangri þessara þriggja meðferðaforma í að minnka felmtursköst og kvíða hjá einstaklingum með felmtursröskun.

Athugaðu að þessi lýsing er gróflega einfölduð og töluvert breytt frá rannsókninni eins og hún birtist í upprunalegu greininni. Þetta er gert í því skyni að aðlaga inntak og gögn að efni og áherslum námskeiðsins.

Skil og tímamörk

Skiladagur verkefnisins er miðvikudagurinn 5. október nk. Skila skal verkefninu fyrir lok dags í pósthólf í þjónustuborðinu í Gimli. Litið verður svo á að öllum úrlausnum sem komnar eru í pósthólfið þegar þjónustuborðið opnar morguninn eftir hafi verið skilað á réttum tíma.

Einnig skal skila verkefninu í gegnum TurnitIn kerfi Háskólans auk þess að skila útprentuðu eintaki í pósthólf í þjónustuborðinu í Gimli. Á forsíðu útprentaða eintaksins þarftu að rita staðfestingarnúmer (Submission ID number) sem TurnitIn sendir þér með tölvupósti.

Notaðu skýrslumátið sem hefur verið lagt inn í Uglu. Skilaverkefni sem eru ekki með staðlaða forsíðu, myndina af klukkunni, hafa misfarist: EKKI TAKA ÞÁ ÁHÆTTU!

Stuðningur

Nemendur geta varpað fram spurningum tengdum verkefninu og svarað öðrum nemendum á umræðuþræði á heimasvæði námskeiðsins í Uglu eða í stoðtíma föstudaginn 30. september nk.

Á umræðuþráðinn má setja spurningar og svör sem tengjast úrlausn á skilaverkefninu. Viðkomandi stoðkennari mun fylgjast með umræðum og koma inn í þær ef þurfa þykir.

Vinsamlega vandaðu til fyrirsagna á fyrirspurnum. Vel valin fyrirsögn vekur athygli bæði okkar og samnemenda og eykur því líkur á vönduðu svari. Við getum ekki lofað svörum við fyrirspurnum með fyrirsögnina Re: Skilaverkefni 1 eða álíka.

Við áskiljum okkur ritstjórnarvald sem felst m.a. í því að fjarlægja innlegg sem við teljum óviðeigandi eða sem tengjast ekki beint úrlausn verkefnisins að okkar mati. Vinsamlega sýndu þessu menntaða einveldi fullan skilning.

Verkefnið

Gerðu vandaða og nákvæma skýrslu sem tekur á öllum eftirfarandi spurningum og viðfangsefnum. Byrjaðu á því að sækja SPSS gagnaskrána og vista hana á harða diskinn hjá þér. Þú getur einnig nálgast textaskrá sem hægt er að lesa inn í CrunchIt.

Tveir nemendur vinna saman að hverju skilaverkefni. Athugaðu: Þú mátt aðeins vinna skilaverkefni tvisvar með sama nemanda.

Verkefnið þarf að vera á APA-formi, þ.e. með Inngangi, Aðferð, Niðurstöðum og Umræðu. Heimildavísanir og heimildaskrá þarf að fylgja heimildakerfi APA.

Hefurðu skoðað leiðbeiningarblöðin sem heimasíða námskeiðsins vísar á? Þau reynast mörgum gagnleg við úrlausn verkefnisins.

Spurningar

  1. Hvernig telur þú að samband meðferðaúrræðis og felmtursröskunar ætti að vera háttað skv. greininni (Clark, Salkovskis, Hackmann, Middleton, Anastasiades og Gelde, 1994) verkefnið byggir á? Byggðu svarið m.a. á umfjöllun um fyrri rannsóknir í inngangi tilvísaðrar greinar.
  2. Lýstu gögnum myndrænt og með töflum. Er eitthvað sem stingur í augu?
  3. Framkvæmdu einhliða dreifigreiningu til að athuga samband meðferðarúrræðis og felmturs.

Heimildir

Clark, D. M., Salkovskis, P. M., Hackmann, A., Middleton, H., Anastasiades, P., & Gelder, M. (1994). A comparison of cognitive therapy, applied relaxation and imipramine in the treatment of panic disorder. The British Journal of Psychiatry, 164(6), 759-769. doi: 10.1192/bjp.164.6.759

Jakob Smári (2000, 14. febrúar). Er hægt að lækna fólk sem „paníkerar“? Hvað með fólk með áráttu eða þráhyggju? Vísindavefurinn. Sótt af slóðinni: http://visindavefur.is/?id=95.