Dreifigreining er tölfræðileg aðferð sem notuð er til að athuga hvort munur sé á tveimur eða fleiri meðaltölum í þýði. Aðferðin byggir á tilteknu líkani sem segir til um áhrif frumbreytu á fylgibreytu. Einhliða dreifigreining skoðar áhrif einnar frumbreytu en marghliða dreifigreining skoðar áhrif tveggja eða fleiri frumbreyta á fylgibreytu.
Sett er fram sú núlltilgáta að enginn munur sé á meðaltölum hópa í þýði. Dreifigreining kannar hvort munur sé á hópunum með því að reikna F-próf. Ef F-prófið er marktækt er óhætt að hafna núlltilgátu og fullyrða að meðaltöl hópanna séu ekki eins í þýði. Hins vegar segir F-prófið ekkert um það á milli hvaða hópa er munur, hvort hann er á milli allra hópanna eða bara sumra og þá hverra. Til að fá svör við þeim spurningum þarf að reikna eftir-á-samanburðapróf, svo sem Próf Scheffés.
© 2004 Valdís Eyja Pálsdóttir