Hér er greinargóð skilgreining á traustleika tölfræðilegra prófa sem undirrituð fann á heimasíðunni PROPHET StatGuide. Samkvæmt þessari skilgreiningu virðist sem traustleiki tölfræðilegs prófs sé fyrst og fremst háður forsendunni um normaldreifingu gagna. Þetta stangast á við aðrar heimildir sem segja forsendurnar um einsleitni og frávillingaleysi ekki síður mikilvægar. En ef horft er fram hjá þessari ónákvæmni þá er skilgreiningin upplýsandi.
Traust (robust) tölfræðileg próf eru próf sem virka vel þrátt fyrir að forsenda þeirra um normaldreifingu gagna bresti. Traust tölfræðileg próf virka vel þótt dreifing gagna víki á margvíslegan hátt frá normaldreifingu. Tölfræðilegt próf getur haft traust ,,réttmæti”, en þá gefur prófið p-gildi sem eru lík raunverulegum p-gildum, þrátt fyrir væg brot á forsendum prófsins. Með öðrum orðum, líkur á höfnunarmistökum aukast ekki (líkurnar á að hafna núlltilgátu sem er ekki röng). Tölfræðilegt próf getur einnig haft trausta ,,skilvirkni” (efficiency), en þá heldur prófið afköstum sínum þrátt fyrir brot á forsendum prófsins. Líkurnar á að hafna núlltilgátu (réttilega) minnka ekki.
© 2004 Valdís Eyja Pálsdóttir