Afköst (power) tölfræðiprófs segja til um líkurnar á því að hafna núlltilgátu réttilega (í öðrum úrtökum úr sama þýði, miðað við það að endurtaka rannsóknina á nákvæmlega sama hátt og hún var framkvæmd). Æskilegt er að afköst séu hvorki of lítil né of mikil en almennt er talið að hæfileg afköst séu um 80%. Of mikil afköst eru í sjálfu sér ekki neikvæð nema að því leyti að þau endurspegla óþarflega háan kostnað við rannsóknina. Næg afköst hefðu þá fengist með færri þátttakendum eða einfaldara rannsóknarsniði. Of lítil afköst eru á hinn bóginn líkurnar á að hafna ekki núlltilgátu þó að ástæða væri til, það er, þegar munur virðist vera á meðaltölum hópa.
Afköst eru háð áhrifastærð, úrtaksstærð og stærð alfa (líkur á höfnunarmistökum). Því stærra úrtak, stærra alfa og meiri áhrif, þeim mun meiri afköst. Auk þess er mikilvægt að jafn fjöldi sé í hólfum sniðsins. Ójöfn skipting í hólf hefur yfirleitt neikvæð áhrif á afköst, nema þegar jaðarmeðaltölin eru í fjölmennustu hólfunum.
Þegar skekkja, misleitni og frávillingar eru í gögnum dreifigreiningar, geta afköstin minnkað. Vitað er að frávillingar draga ótvírætt úr afköstum, en umdeildara er hvort skekkja og misleitni hvort fyrir sig hafi jafnmikil áhrif.
Hægt er að reikna afköst nákvæmlega ef villan er normaldreifð og jafn fjöldi er í hólfum. Önnur aðferð er að áætla afköst gróflega, ef upplýsingar liggja fyrir um áhrifastærðir og fjölda í hverju hólfi. Þetta er hægt að gera með því að nota sér ýmsa forritlinga, svo sem Afkastahermi Lenths.
Afkastareikningar eru oft gerðir þegar verið er að skipuleggja rannsóknir. Þeir eru notaðir til að athuga hvaða úrtaksstærð og rannsóknarsnið hentar fyrir hverja rannsókn.
© 2004 Valdís Eyja Pálsdóttir