Normalrit (normal probability plot) er myndræn tækni til að meta hvort gögnin normaldreifist í þýði. Gögnunum er dreift inn á rit sem fyrir hefur línu sem sýnir normaldreifingu, þessi lína á að vera nánast bein og er fengin út frá meðaltali og staðalfráviki í þýði. Þar sem meðaltal og staðalfrávik fyrir þýði eru yfirleitt ekki til er notast við væntigildi í þýði til að mynda þessa beinu línu.
Frávik gagnanna frá beinu línunni benda til frávika frá normaldreifingu. Þegar lesið er í ritið þarf engu að síður að hafa í huga að minniháttar frávik verða mun sýnilegri en á ritum eins og til dæmis kassariti, því er ekki ástæða til að örvænta þátt örlítil frávik frá beinu línunni komi fram.
Mynd 1: Normalrit sem sýnir dreifingu sem normaldreifist í þýði
Sé skekkja í gögnunum verður drefing gagnanna sveigð út frá beinu línunni. S- laga dreifing bendir aftur á móti til gólf og rjáfurhrifa.
Á mynd tvö má sjá neikvæða skekkju í grafinu, meirihluti gagna er neðarlega á grafinu og sveigist út frá beinni línu, tíðni punkta er lítil þegar ofar dregur.
Mynd 2: Normalrit sem sýnir neikvætt skekkta dreifingu
Á mynd þrjú má sjá jákvætt skekkta dreifingu, þar raða gildin sér á efri hluta myndarinnar og sveigjast út frá beinni línu.
Mynd 3: Normalrit sem sýnir jákvætt skekkta dreifingu
Dreifing villunar getur verið á fleiri vegu en jákvætt eða neikvætt skekkt. Á mynd 4 má sjá dreifingu sem er eilítið tvítoppa og því ekki alveg normaldreifð. Tvítoppa dreifing getur verið allt eins hættuleg og jákvæð eða neikvæð skekkja þegar unnið er úr gögnum. Dreifingin sem sýnd er á mynd fjögur liggur hinsvegar það nálægt normaldreifingu að ekki er ástæða til að ætla að það hafi áhrif á niðurstöður úrvinnslu.
Mynd 4: Normalrit sem sýnir tvítoppa dreifingu
Frávillingar eru ekki eins áberandi á normalriti og mörgum öðrum ritum, hinsvegar má oft greina þá og ef vísbendingar eru um frávillinga er hugsanlega sniðugt að gera kassarit eða laufrit sem gefa betri mynd af frávillingum.
© 2004 Jóhannes Karl Sigursteinsson