Hægt er að misskilja og mistúlka mælingar á hlutfalli skýrðrar dreifni.
Í fyrsta lagi hefur það áhrif á hversu mikil skýrð dreifni kemur fram hvernig frumbreytan er flokkuð í hópa (þegar hún er samfelld). Tengslin geta nefnilega farið mikið eftir því hvernig tekst upp við þessa flokkun. Ef meðaltölin hópanna lýsa tengslunum vel, gefur eta rétta mynd af styrk tengsla en annars ekki. Til dæmis í rannsókn þar sem skoðuð eru áhrif aldurs á lestrargetu gæti rannsakandi fengið háa skýrða dreifni fyrir aldurshópana 5 ára, 10 ára og 15 ára en lága skýrða dreifni ef aldur væri flokkaður í hópana 5 ára og 1 mánaða, 5 ára og 2 mánaða og 5 ára og 3 mánaða. Með þessu er átt við að skipting frumbreytunnar upp í hópa þarf að vera merkingabær. Ólíklegt er að mikill munur sé á lestrargetu á milli 5 ára og 1 mánaða, 5 ára 2 mánaða og 5 ára 3 mánaða krakka.
Annað atriði sem einnig þarf að hafa huga við slíka uppskiptingu í hópa er sá veikleiki etu að með fleiri hópum frumbreytu eykst eta og verður 1 ef hóparnir eru jafnmargir gildum fylgibreytunnar. Þetta þýðir að ef fá gildi lenda í hverjum hópi þá verður eta hærra en ef mörg gildi eru í hverjum hópi. Það þarf því að gæta að fjölda flokka frumbreytu og helst þarf fjöldi þeirra að vera þannig að minnsta kosti 5-6 gildi fylgibreytu séu í hverjum flokki frumbreytu. Ef skoðað er aftur dæmið hér að ofan þá gæti fengist hærri skýrð dreifni fyrir skiptinguna 5 ára 1 mánaða, 5 ára 2 mánaða o.s.frv. því hóparnir yrðu mun fleiri og hugsanlega færri börn í hverjum hópi samanborið við skiptinguna 5 ára, 10 ára og 15 ára. Það hversu margir hópar frumbreytu verða og hversu mörg gildi lenda í hverjum hópi hefur áhrif á hversu mikil skýrð dreifni kemur fram. Gæta þarf að þessum þáttum og flokka frumbreytuna á þann hátt að hún lýsi tengslum breytanna sem best. Annars er hætta á að mistúlka áhrif.
Í öðru lagi eru engar reglur um hversu mikla hlutfallslega mikla dreifingu þarf að skýra til að hún hafi einhverja merkingu. Í sumum tilvikum getur skýrð dreifni sem virðist lítil og ómerkileg skipt miklu máli, t.d. ef lyf minnkar hættu á blóðtappa um 40 % en skýrð dreifni er einungis 1 %. Skýrð dreifni gefur því ekki alltaf til kynna mikilvægi áhrifa.
Í þriðja lagi er erfitt að meta mikilvægi áhrifa án þess að vísa í samhengið þar sem áhrifin eru metin. Frumbreyta getur haft mikil áhrif á fylgibreytu í ákveðnum aðstæðum en ekki öðrum. Til dæmis ef kyn skýrir 1 % af dreifingu launa fólks þá getur það valdið miklum mun á hlutfallslegum fjölda karla og kvenna í há- og láglauna störfum þó áhrifin séu nánast engin milli kynja í meðallauna störfum.
Í fjórða lagi byggjast mælingar á skýrðri dreifni eingöngu á breytileika milli einstaklinga. Í mælingum á skýrðri dreifni er stærð áhrifa metin með því að skoða breytileika í gildum fylgibreytu milli einstaklinga stað þessa að hafa ákveðin staðal til viðmiðunar. Það getur hinsvegar alltaf verið að úrtaksdreifingin, það hvernig fólk velst í úrtök rannsóknar, hafi áhrif á styrk þeirra tengsla sem η² gefur upp. Það eru einnig sjaldnast gefin upp öryggismörk á mælingar á skýrðri dreifni en slík öryggismörk gæfu upplýsingar um hugsanlega spönn styrks tengslanna. Bæði þessi atriði myndu auðvelda túlkun á skýrðri dreifnina og mat á hvort η² lýsi raunverulegum styrk tengsla í þýði.
Í fimmta lagi er η² jákvætt skekkt og gefur því upp of sterk tengsl milli breyta. Hægt er að nota mæliaðferðina ω² (ómega) til viðmiðunar en hún er óskekkt.
Í sjötta lagi er eta ótraust gagnvart frávillingum. Ef þeir eru til staðar getur útreikningur á eta gefið ranga mynd af tengslum breyta.
© 2004 Erla Svansdóttir