Aðferðafræði II 10.05.03


Formúlublöð í prófum

Nei, þú mátt ekki hafa nein gögn með þér í prófið.

Þú færð hins vegar formúlublað í prófinu, þ.e. það mun fylgja prófheftinu. Það formúlublað verður nákvæmlega eins og þau sem þú finnur á heimsvæði námskeiðsins en sérstaklega auðkennt vegna prófsins.

2003-12-29h GBA

Hlutfallsleg skipting aðferðafræði og tölfræði

Hvernig eru hlutföllinn í aðferðafræðinni og síðan tölfræðinni. Aðferðafræði I var t.a.m. 50% tölfræði og 50% aðferðafræði. Hvernig er þessu hagað hjá þér — og þá ég við prófin, hvor hlutinn hefur meira vægi í þeim?

Efnið sem þú ferð yfir í fyrirlestrunum, er það bæði aðferðafræðin og tölfræðin? Aftur tek ég aðferðafræði I sem dæmi en þar var annar kennarinn með aðferðafræðina en hinn með tölfræðina.

Það er ekki gerður skýr greinarmunur á aðferðafræði og tölfræði í þessu námskeiði. Mikið af því sem við förum í er tölfræði en að sama skapi er margt af því aðferðafræði. Af því leiðir að engin skýr skipting er gerð í prófum heldur fléttast þetta saman í einstökum spurningum á sama hátt og í fyrirlestrum og lesefni.

2003-01-17a GBA

Heldur námskeiðið áfram eftir lok kennslu?

Hvað verður um aðstoðartíma og annað slíkt í Aðferðafræði II þegar fyrirlestrarnir eru búnir?

Kennslu lýkur yfirleitt 1½ viku fyrr en önnur námskeið í félagsvísindadeild. Þetta er það kennslumagn sem verið hefur í námskeiðinu til fjölda ára. Ástæða þess að við hættum snemma er að áður voru hlutapróf (þrjú próf) haldin í kennslustundum en voru svo færð yfir á laugardaga. Þessi próf tóku þrjá daga úr kennslu.

Eftir að kennslu lýkur halda aðstoðartímar áfram. Önnur þjónusta námskeiðsins er óbreytt: Heimasíðu námskeiðsins verður haldið við eftir þörfum og tekið verður við fyrirspurnum í Spurt og svarað fram að og jafnvel fram yfir prófdag.

2001-03-30a GBA

Er það skylda að mæta í hlutaprófin?

Er skilda að mæta í hlutaprófið eða er það frjálst og í beinu framhaldi af þeirri spurningu ef ekki er mætt þarf að skila vottorði?

Nei, þú þarft aðeins að taka eitt hlutapróf. Meginreglan er að taka bæði en þá gildir hærri einkunnin 15% af námskeiðseinkunn. Ef það er þér í hag, þá gilda báðar einkunnir saman 30% af námskeiðseinkunn.

Ef þú kýst að sleppa fyrra hlutaprófi, þarftu að passa upp á að mæta í það síðara. Fólk getur veikst, lent í árekstri á leið í próf eða einhverjum öðrum hremmingum. Þá er gott að vera búin með fyrra próf af tveimur ef eitthvað kemur upp á þegar kemur að því síðara.

Vottorð eiga við um veikindi. Ég mæli með því að þeir sem eru veikir í fyrra hlutaprófi skili vottorði; þá eru þeir búnir að dekka það. Ef þeir síðan eru aftur veikir í því síðara eða hafa aðrar gildar ástæður, geta þeir tryggt sér 90% lokapróf með því að skila vottorði fyrir seinna prófið líka.

2003-12-29g GBA

Er hægt að falla á hlutaprófunum og tölvu­prófinu?

Þurfum við að ná lokaprófinu áður en hinar einkunnirnar fyrir hlutaprófin og SPSS verða reiknaðar inn í?

Til að ná Aðferðafræði II þarf að fá 4,75 eða hærra í lokaeinkunn námskeiðsins (nám­skeiðs­einkunn). Lokaeinkunnin er samsett úr einkunnum hlutaprófa, tölvuprófs og lokaprófs, sbr. upplýsingar um vægi prófa í námskeiðslýsingu.

Engu skiptir hvernig lokaeinkunn námskeiðsins er náð. Því er það ekki forsenda þess að ná námskeiðinu að hafa náð lokaprófinu, tölvuprófinu né einstökum hlutaprófum. Eina krafan er að lokaeinkunnin sé 4,75 eða hærri þegar allar þessar einkunnir eru reiknaðar saman hver með sitt vægi.

2002-04-23b GBA
2003-01-09a GBA

Hvað þarf að reikna mörg dæmi fyrir prófið?

Hvað er æskilegt að hafa reiknað af dæmum fyrir fyrsta hlutaprófið?

Það er alltaf matsatriði hve mörg dæmi á að reikna. Á endanum verður hver og einn að ákveða það fyrir sig. Fjöldi dæma fer auðvitað eftir því hvernig gengið hefur að leysa úr verkefnunum fram að þessu.

Athugaðu þó að að verkefnin eru af tvennu tagi, þ.e. bæði dæmareikningur og efnis­spurn­ingar. Gættu að því að spreyta þig við efnisspurningar. Þær vega um 70% af prófinu og því er án efa skynsamlegt að reyna sig við allar efnisspurningarnar í Stoð­kverinu.

Verkefni 1 til 21 í Stoðkverinu eru að stofni til eldri en hin verkefnin. Verkefni 22 til 40 endurspegla því form prófspurninga á fyrsta hlutaprófinu og lokaprófinu betur en þau sem á undan koma.

Fyrir hlutapróf tvö endurspegla verkefni 46 til 83 form prófspurninga eins og þær verða á hlutaprófi tvö og á lokaprófinu. Verkefni 41 til 45 eru af eldri uppruna.

Fyrir hlutapróf þrjú eru verkefni 84 til 86 af eldri uppruna. Verkefni 87 til 93 endurspegla því best hvernig prófsspurningar lokaprófsins verða orðaðar.

Þrátt fyrir ofangreindar upplýsingar endurspegla öll uppgefin verkefni Stoðkversins að sjálfssögðu viðfangsefni prófanna, þótt form og orðalag prófspurninga dragi dám af þeim verkefnum kversins sem eru nýrri.

2002-02-06 GBA
2003-01-09b GBA

Hve margir með 10 á hlutaprófi I vorið 2001

Þú sagðir í einum fyrirlestri eftir hlutapróf 1 að það væru fáir yfir átta en þegar ég leit á niðurstöður úr prófinu voru þó nokkrir með 10 þeir voru allir á seinna blaðinu og stundum komu nokkrir í röð. Hvort er rétt?

Seinna blaðið sýnir sundurliðun fyrir dæmareikninginn; þar voru þó nokkrir yfir 9 í einkunn. Fyrra blaðið sýnir meðaleinkunn fyrir dæmin tvö, meðaleinkunn fyrir efnisspurningarnar átta og heildareinkunnina fyrir prófið.

Það var enginn með 10 á hlutaprófinu en 2 eða þrír með 9 eða hærra. Það voru þó nokkrir með 8 eða hærra í prófinu, sennilega 10 – 12 manns. Ég kannast ekki við að hafa sagt annað; ef þér heyrðist ég neita þessu hef ég væntanlega orðað þetta eitthvað klaufalega. Þessi fjöldi er auðvitað hvorki mikið né lítið í 183 manna prófi heldur einfaldlega það sem búast má við.

Að öðru leyti tala myndritin sínu máli; það eru fjölmargir sem ná vel viðunandi árangri en því miður einnig margir sem þurfa að bæta sig verulega. Það er ánægjulegt að það eru einnig margir sem hafa náð mjög góðum árangri eins og ofangreindar tölur bera með sér.

2000-03-06 GBA

Spurningar um hlutapróf I vorið 2001?

Ég sá að fyrsta hlutaprófið hefur farið fram úr björtustu vonum, að öllu samanlögðu.

Nei í rauninni ekki; ert þú ekki einfaldlega ánægður með þína eigin einkunn? Meðaleinkunn prófsins er á bili sem er dæmigert fyrir 1. árs próf í félags­vísinda­deild og svipað og öll undanfarin ár.

Mér gekk vel á hlutaprófinu. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég muni hafa næga þekkingu þegar kemur að hlutaprófi II. Stundum hefur það reynst mér mun betur, að bíða þar til að lokaprófi kemur og hafa þá mun meiri yfirsýn. Væri þetta raunhæfur kostur?

Þú verður að taka þína ákvörðun en sjálfum finnst mér það ekki skynsamlegt. Þú hefur engu að tapa við að taka seinna hlutaprófið en getur öðlast dýrmæta reynslu og æfingu. Ef hlutapróf II er lægra en hlutapróf I mun það hvort sem er falla niður en sú reynsla sem þú hefur öðlast mun tvímælalaust gagnast þér í lokaprófinu.

Mér sýnist að árangurinn fari eftir því hve miklum tíma ég ver í námskeiðið.

Því meira sem þú veltir námsefninu fyrir þér því betri verður árangurinn. Það þarf töluverðan meðgöngutíma til að skilja efnið til fulls; ef þú notar tímann rétt þá dýpkar skilningurinn á efninu eftir því sem líður nær lokaprófinu.

Lokaskilningurinn getur komið í próflestrinum sjálfum. Ef hins vegar er beðið með allan lestur þar til í upplestrarfríinu, verður skilningurinn alltaf yfirborðskenndur og hætt við því að árangurinn verði eftir því.

Væri möguleiki að fá gamalt lokapróf?

Þær spurningar úr prófunum í fyrra sem eru sambærilegar við prófin nú í vetur er að finna í dæmakverinu. Bæði dæmum og efnisspurningum hefur verið bætt við dæmakverið; það er ekki um aðrar spurningar að ræða.

Sumir nemendur hafa aðgang að hlutaprófum sem voru notuð í fyrra; þá var yfirgangstímabil og ákveðin þróun í innihaldi hlutaprófanna. Sumt tókst og annað tókst síður. Í dæmakverið hef ég sett þær spurningar sem samsvara því sem gæti komið á prófi nú í vetur. Þeir sem búa sig undir próf í Aðferðafræði II á grundvelli spurninga sem ekki birtast í dæmakverinu gætu því verið að búa sig undir próf sem aldrei verður haldið í námskeiðinu.

2000-03-05 GBA

Hvað er efnisleg og tölfræðileg túlkun?

Getur þú svarað því hvernig gott svar á að vera þegar spurt er um efnislega og töl­fræði­lega túlkun?

Í tölfræðilegri túlkun tekur maður talnalegar niðurstöður og segir hvað þær þýða með hugtökum tölfræðinnar. Dæmi um tölfræðilega túlkun þegar r2= 0,46 er það að segja að frumbreytan skýri 46% af dreifingu fylgibreytunnar eða setja fram aðra ámóta túlkun á niðurstöðunni. Tölfræðileg túlkun er eðlilega breytileg eftir því hvaða mælitala er notuð. Þannig túlkum við Pearson r eilítið öðru vísi en raðfylgni Spearmans. Mælitölur eins og gamma, Somers d og Kendalls t túlkum við á enn annan máta og hver þessara þriggja síðastnefndu er túlkuð á eilítið ólíka vegu. Þannig gefa mjög margar mælitölur upp hlutfallslega skýringu en það er breytilegt milli mælitalna í hverju slík skýring felst.

Efnisleg túlkun er einfaldlega að skýra frá niðurstöðum á hversdagslegri íslensku. Ég kalla það að tala svo amma skilji. Ömmur eru af ýmsu tagi; hér er ekki verið að gera lítið úr neinum. Þegar talnalega niðurstaðan og tölfræðilega túlkunin er komin, er eftir að greina frá hvað niðurstöðurnar þýða efnislega. Þetta getur falist í því að segja að bíóferðum fækki með aldri, þyngd aukist með aukinni líkams­þyngd eða að konur hafi lægri laun en karlar. Efnisleg túlkun er sem sé tiltölulega einföld og tilgerðarlaus lýsing á niðurstöðunni án nokkurra talnalegra eða töl­fræði­legra út úr dúra.

2000-02-18 GBA

Valid XHTML 1.0! Valid CSS!